Vísitala neysluverðs (VNV) sem reiknuð er með húsnæðislið hentar ekki vel sem stýritæki fyrir húsnæðismarkað, sér í lagi ekki við aðstæður sem þessar, þegar skortur er á húsnæði að sögn Kristrúnar Frostadóttur, hagfræðings Viðskiptaráðs. Þetta sagði hún í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2.

Eins og áður hefur verið greint frá hefur verðbólga haldist lág og stöðug upp á síðkastið og ef að vísitala neysluverðs sé skoðuð án húsnæðisliðarins er hér verðhjöðnun. Án húsnæðis hefði vísitala neysluverðs lækkað um 2,6% síðastliðna tólf mánuði. Kristrún bendir á að húsnæðisliðurinn sé víða erlendis ekki tekinn með í reikninginn og að einnig sé hægt að reikna hann með á fleiri en einn hátt.

„Af því það eru svo margir á Íslandi sem búa í sínu eigin húsnæði kannski 70 til 80% þá þarf að reikna ákveðinn notendakostnað af því að búa í eigin húsnæði. Það er reiknuð leiga og það eru tölur sem eru metnar út frá fasteignaverði. Erlendis er oft sá liður ekki inni í húsnæðispartinum af verðbólgunni og auðvitað að því leytinu til þá hífir þetta upp verðbólguna hér,“ bendir Kristrún á.