Gengi hlutabréfa Herbalife hefur hækkað um 10,2% það sem af er degi. Hækkunin kemur í kjölfarið á því að fyrirtækið tilkynnti um að viðræður hafi átt sér stað um að fyrirtækið yrði tekið af markaði. Viðræðurnar hafi þó ekki skilað árangri samkvæmt frétt Bloomberg.

Fyrirtækið greindi ennfremur frá því að það hygðist kaupa eigin bréf fyrir allt að 600 milljónir dollara. Mun félagið kaupa bréfin á bilinu 60 til 68 dollara á hlut. Þeir sem að selja bréfin muni einnig fá aukagreiðslu ef til þess kemur að félagið verið tekið yfir á næstu tveimur árum.

Þá var jafnframt greint frá því að Carl Ichan sem er stærsti eigandi fyrirtækisins geti ekki eingast yfir 50% hlut í félaginu án þess að leggja fram yfirtökutilboð. Ichan mun ekki selja sín bréf í endurkaupaáætlun félagsins. Ichan á nú um 24% hlut í fyrirtækinu.

Hækkunin er enn eitt áfallið fyrir Bill Ackman sem tók skortstöðu fyrir milljarð dollara í Herbalife fyrir fimm árum síðan. Hefur Ackman sakað fyrirtækið um að reka pýramídasvindl. Hefur hann átt í miklum deilum við Carl Ichan sem hefur varið sölukerfi Herbalife með kjafti og klóm.

Gengi hlutabréfa Herbalife hefur hækkað um 41% það sem af er þessu ári og stendur nú í 68 dollurum á hlut. Heildarmarkaðsverðmæti félagsins nemur nú um 6,3 milljörðum dollara.