*

mánudagur, 20. ágúst 2018
Erlent 21. september 2017 18:26

Herðir þvinganir á hendur N-Kóreu

Hægt verður að beita fyrirtækjum sem stunda viðskipti við Norður-Kóreu refsiaðgerðum.

Ritstjórn
epa

Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifaði í dag undir forsetatilskipun sem kveður á um að hægt verði að beita fyrirtæki sem stunda viðskipti við Norður-Kóreumenn viðskiptaþvingunum. Kínverskir bankar verða líklega fyrir barðinu á þvingunum — en í kjölfarið verður erfiðara fyrir Norður-Kóreu að fjármagna sig. Trump tók einnig fram að Seðlabanki Kína hafi bannað öllum kínverskum bönkum að stunda viðskipti við Norður-Kóreu. 

Fyrir tæplega tveimur vikum síðan, voru refsiaðgerðir á hendur Norður-Kóreu þyngdar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, vegna kjarnorkutilrauna Norður-Kóreumanna. Mikil spenna hefur ríkt á alþjóðasviðinu vegna tilraunanna, og hafa valdamestu ríki heims þrýst á Norður-Kóreu að hætta við tilraunir sínar með kjarnorku. 

Þegar Trump greindi frá nýju forsetatilskipuninni í dag sagði hann að aðgerðirnar miðuðu að því að „skerða möguleika Norður-Kóreu á að fjármagna hættulegasta vopn sem að mannkynið hefur nokkurn tímann kynnst“. Á þriðjudag lofaði forsetinn að „gjöreyða“ Norður-Kóreu ef að ríkið myndi ógna Bandaríkjunum og samstarfsríkjum, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Í kjölfarið líkti utanríkisráðherra Norður-Kóreu ummælum Trump við „hundsgelt“.