Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir, sem nýlega tók kjör sem formaður stjórnar VÍS, segir í bréfi sem hún sendi hópi hluthafa í félaginu að það séu vonbrigði að Herdís Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, hafi sagt sig úr stjórn félagsins á þriðjudag.

Í bréfinu segist hún meðvituð um að Herdís, fráfarandi stjórnarformaður VÍS hafi haft væntingar um að sitja áfram sem stjórnarformaður að því er segir í frétt Vísis um málið.

Lakari rekstur en samkeppnisaðilanna

„Það er mín skoðun að þegar fólk er kosið í stjórn félags, VÍS í þessu tilfelli, þá sé óeðlilegt að gera þá kröfu að ef viðkomandi fái ekki stól formanns þá hafi hann ekki áhuga á að starfa að málefnum félagsins,“ segir Svanhildur sem á um 8% hlut í VÍS ásamt eiginmanni sínum Guðmundi Erni Þórðarsyni.

„engin launung að rekstur VÍS hefur verið lakari en samkeppnisaðilanna undanfarin ár. Og það er eitthvað sem við eigum ekki að sætta okkur við. Þar mun áhersla nýrrar stjórnar liggja.

Það var von mín að Herdís myndi reyna á stjórnarsamstarfið áður en hún tæki slíka ákvörðun, en hún tók þessa ákvörðun án þess að sitja einn hefðbundinn stjórnarfund eftir aðalfundinn.“

Á í Kviku og VÍS, sem á í bankanum

Segir Svanhildur jafnframt að með kaupum VÍS á 22% hlut í Kviku banka í janúar megi segja að opnaðar hafi verið dyr að frekari útvíkkun á starfsemi tryggingafélagsins, en Guðmundur Ernir eiginmaður hennar situr í stjórn bankans en þau hjónin eiga um 8% hlut í bankanum í gegnum félag sitt K2B fjárfestingar.

„Það er rétt að árétta að stefnumótunarvinna félagsins og ákvörðun um kaup félagsins í Kviku og hugmyndavinna tengd þeim kaupum var unnin af forstjóra og þeirri stjórn sem sat fram að síðasta aðalfundi,“ segir Svanhildur.

„Í framhaldi af umfjöllun hér að ofan um Kviku er rétt að taka fram að ég er fjárfestir á markaði og á því eignarhluti í nokkrum félögum, eitt þeirra er Kvika.

Eignarhlutur minn var eftir því sem ég best veit keyptur áður en VÍS tók ákvörðun um að fjárfesta í félaginu og áður en ég hafði nokkra aðkomu að stjórn VÍS.

Ég kem ekki að umfjöllun eða ákvörðunum í stjórn í málum sem hafa með hlut félagsins í Kviku banka og sama myndi gilda um önnur félög sem ég hef mögulega hagsmuni af.“