Herinn í Zimbabwe, hefur tekið yfir höfuðstöðvar ríkisútvarpsins í landinu ásamt heimili Robert Mugabe, hins 92 ára gamla forseta landsins sem verið hefur við völd í landinu síðan árið 1980. Spilaði útvarpsstöð ríkisins yfirlýsingu hershöfðingja landsins síendurtekið meðan sjónvarpsstöðin sýndi einungis tónlistarmyndbönd.

Mugabe tók við völdum, fyrst sem forsætisráðherra, í kjölfar friðarsamninga sem gerðir voru að undirlagi Breta, fyrrum nýlenduveldis ríkisins sem áður hét Rhódesía, við ríkisstjórn Abel Muzerewa og Ian Smith. Sá síðarnefndi hafði leitt ríkisstjórn hvíta minnihlutans í landinu í stríðinu við marxíska uppreisnarmenn Mugabe og fleiri uppreisnarhópa sem studdir voru af kínverskum og rússneskum stjórnvöldum.

Neita því að um valdarán sé að ræða

Tilkynnti herinn í ríkisútvarpi landsins að staðan í landinu væri komið á óásættanlegt stig, en þó herinn neitaði því að um valdarán gegn Mugabe væri að ræða, þá væri ætlunin að stöðva glæpamenn í kringum forsetann sem væru að valda félagslegum og efnahagslegum hörmungum í landinu.

Varaði hershöfðinginn S.B. Moyo við því að herinn myndi grípa til viðeigandi ráðstafana gegn öllum ógnunum. Samkvæmt frétt New York Times virðist sem lífið gangi sinn vanagang á götum úti í landinu, fólk á leið til vinnu en upplýsingaráðherra landsins, Siomon Khayo Moyo gat engin svör gefið við fyrirspurnum um stöðu mála.

Herinn nátengdur brottreknum varaforseta

S.B. Moyo er talinn vera í nánu sambandi við hershöfðingjann Chiwenga, sem jafnframt var í sterkum tengslum við Emmerson Mnangagwa, fyrrum varaforseta landsins sem Mugabe rak úr embætti og valdaflokknum ZANU-PF í síðustu viku.

Ákvörðunin hefur verið talin til þess fallin að tryggja að Grace Mugabe, hin 52 ára gamla eiginkona forsetans geti tekið við völdum í landinu, en heilsu hans hefur hrakað mikið á síðustu árum á sama tíma og vald hennar hefur aukist. Chiwenga var í síðustu viku staddur í Kína, sem verið hefur í nánum tengslum við stjórnvöld í landinu, en ekki hefur verið vitað um hvar varaforsetinn fyrrverandi væri niðurkominn.

Óverðbólga og efnahagshrun ásamt landflótta hvítra íbúa

Efnahagslífi Zimbabwe hefur hrakað mikið undir stjórn Mugabe, en í kjölfar þess að ákvæði friðarsamningsins við hvíta minnihlutann og Breta um að eignaréttur hvítra bænda á landi væri tryggður runnu út hefur stjórnin og stuðningsmenn hennar hrakið flesta þeirra af löndum sínum.

Þegar mest lét bjuggu um 300 þúsund hvítir í landinu en langflestir þeirra hafa flúið land undir stjórn Mugabe á sama tíma og eignir þeirra hafa fuðrað upp í viðvarandi verðbólgubáli þangað til stjórnvöld neyddust til að taka upp Bandaríkjadal. Mikil óánægja hefur kraumað meðal margra íbúa Zimbabwe vegna lífsstíls Grace Mugabe og barna hennar á sama tíma og ríkisstjórn landsins hefur reynt að hemja frekari verðbólgu í landinu að því er Wall Street Journal segir frá.