Hjálpræðisherinn hefur nú selt Herkastalann svokallaða, sem er staðsettur við Kirkjustræti 2. Kaupin voru innsigluð á miðvikudag, og verðið hljóðaði upp á 630 milljónir króna. Vísir greindi frá þessu.

Þá hafi fjárfestahópur, erlendir jafn sem innlendir, staðið að kaupunum, undir sameiginlega nafninu Kastali ehf. Þó er fyrirtækið ekki skráð í fyrirtækjaskrá, svo lítið er til af upplýsingum um félagið eða eignarhald þess.

Húsnæðið er 1.405 fermetrar. Stefnt er að því að það verði afhent þann 1. október næstkomandi. Þá mun rekstri gistihúss Hjálpræðishersins vera hætt samhliða sölunni. Samtökin leita nú að lóð í Reykjvík til að hýsa starfsemi sína.

Viðskiptablaðið fjallaði áður um fyrirhugaða sölu húsnæðisins.