Hermann Guðmundsson, fv. forstjóri N1, minntist í viðtali við Viðskiptablaðið á eignarhlut BNT í Glitni og Icelandair Group og að hann hefði verið mótfallinn því að eiga hlut í Glitni eftir að FL Group keypti stóran hluta í bankanum vorið 2007.

BNT var sem kunnugt er móðurfélag N1 og lenti í talsverðum hremmingum eftir hrun, m.a. í kjölfar þess að eignarhlutir félagsins í Glitni og Icelandair Group urðu verðlausir eftir hrun. Þetta leiddi að lokum til þess að félagið missti N1 í hendur kröfuhafa og lánastofnana. Það verður ekki hjá því komist að spyrja Hermann frekar út í þá skoðun hans að BNT hefði átt að losa um hlut sinn í Glitni, en að það var ekki gert var stór þáttur í því að fella félagið.

„Það urðu straumhvörf í Glitni vorið 2007, þegar FL Group var að kaupa stóra hluti í bankanum af Milestone annars vegar og bræðrunum Einari og Benedikt Sveinssonum hins vegar,“ segir Hermann.

„Þá vildi ég losa um hlutinn í Glitni. Það náðist þó ekki samstaða um það og ég var í minnihluta. Ég var þeirrar skoðunar að fyrst við hefðum ekki beint vægi í bankanum sem hluthafar þá taldi ég að við ættum fremur að nýta fjármagnið í að byggja frekar upp N1. Niðurstaðan varð þó önnur og maður varð að kyngja ákvörðun hluthafanna.“

En þú varst sáttur við að eiga í Icelandair á þeim tíma?

„Að mínu mati er Icelandair eitt mikilvægasta fyrirtæki þjóðarinnar á allan hátt. Vegna þess hve öflugt leiðakerfi félagsins er þá er það einn af grunnum innviða íslensks atvinnulífs,“ segir Hermann.

„Árið 2006 vildi FL Group selja félagið og í kjölfarið fóru Finnur Ingólfsson og Ómar Benediktsson að setja saman kaupendahóp að félaginu. Við vorum beðnir um að koma inn í þann hóp sem meðfjárfestar, en þó áhrifalitlir. Við ákváðum að slá til og kaupa um 14% hlut, greiddum helminginn með eigin fé en helminginn með láni. Síðan gerast hlutir sem enginn sá fyrir og fljótlega eftir þetta eru Finnur og Ómar komnir á þá skoðun að þeir vilji selja sig út úr félaginu, eða í það minnsta minnka sína stöðu. Þá var komin upp sú staða að menn voru farnir að ræða við SAS um að taka stöðu í félaginu og kaupa stóran hlut. Okkur hugnaðist ekki að SAS myndi eignast stóran hlut í Icelandair og það hefði ekki orðið gott fyrir félagið eða þjóðina. Úr varð að hópur fjárfesta í kringum okkur tók sig til og keypti þennan hlut. Þessi fjárfesting var hugsuð til að verja þá innviði sem félagið byggir á hér á landi, frekar en eingöngu hrein arðsemisfjárfesting.“

Hermann segir að Icelandair Group hafi síðan þá sýnt að félagið sé öflugt og stjórnendur þess fádæma farsælir eins og hann orðar það.

„Það er ljóst núna að framtíðaráætlun félagsins var þá gífurlega vanmetin. Við sáum ekki fyrir okkur að afkoman yrði svona góð,“ segir Hermann.

Icelandair Group var þó illa statt um tíma og þurfti líka að fara í gegnum endurskipulagningu. Það gerðist að hluta til á vakt þeirra sem keyptu félagið af FL Group, skýtur blaðamaður inn í.

„Versta tjónið í þessu er að þegar félagið var keypt af FL Group þá lá fyrir loforð frá Glitni um að endurfjármagna skuldir félagsins með hagstæðu langtímaláni. Það var þó aldrei gert,“ segir Hermann.

„Félagið var fjármagnað að stórum hluta með sjö milljarða króna skammtímaláni á yfir 20% vöxtum. Glitnir tók á fjórum árum sjö milljarða í vaxtatekjur af sjö milljarða króna láni — og tæmdi þar með rekstrarafgang félagsins. Hluthafar Icelandair urðu fyrir gífurlegu tjóni af þessum ástæðum og félagið þurfti í kjölfarið að fara í gegnum mikla endurskipulagningu. Það hefði kannski aldrei þurft miðað við núverandi rekstur.“

Nánar er rætt við Hermann í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Hann stjórnaði hraðri og áberandi uppbyggingu olíufélagsins N1 þangað til honum var sagt upp störfum í síðasta mánuði eftir að nýir eigendur komu að félaginu. Í viðtalinu tjáir Hermann sig um brotthvarf sitt, uppbyggingu félagsins, greiðsluvandræði móðurfélagsins sem næstum felldi N1 og loks um samkeppnina á milli olíufélaganna.