Hilda, dótturfélag Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ), auglýsir lánasafn til sölu . Söluferlið er opið öllum fjármálafyrirtækjum, en aðilar að söluferlinu þurfa að sýna fram á fjárhagslegan styrk og fjárfestingagetu umfram 500 milljónir króna.

Ekki fengust nánari upplýsingar um lánasafnið hjá Hildu þegar eftir því var leitað í dag. Þau fjármálafyrirtæki sem taka þátt í söluferlinu þurfa að skila inn trúnaðaryfirlýsingum. Samkvæmt frétt Kjarnans frá því á síðasta ári átti Hilda 387 útlán og önnur skuldabréf um mitt síðasta ár. Þau eru sögð hafa verið metin á 5,7 milljarða króna.

Auglýsingin er meðal annars athyglisverð fyrir þær sakir að ESÍ auglýsti Hildu í heild sinni til sölu í ágúst í fyrra. Öllum tilboðum í félagið var hins vegar hafnað .