Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi, býður sig fram í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Hildur, sem er menntaður lögfræðingur, sat fyrst sem varamaður í borgarstjórn árið 2010. Í tilkynningu segist Hildur vilja vernda frelsi einstaklingsins og sjálfstæði.

Forgangsraða í þágu hinna þurfandi

Hún vill enn fremur leggja áherslu á að þeir sem þurfa á aðstoð að halda séu fremst í forgangsröðinni þegar ríkissjóður fær aukið svigrúm og að hún vilji „bjóða upp á meira valfrelsi og virðingu fyrir mismunandi þörfum þeirra sem þurfa á velferðarþjónustu að halda.“

Hildur segir jafnframt í tilkynningu að: „Ég býð krafta mína í þágu þess að sjálfstæðisfólk í Reykjavík geti kosið öflugan og breiðan lista fólks sem getur stuðlað að því að varðveita þann efnahagslega árangur sem hefur náðst á núverandi kjörtímabili og staðið til framtíðar vörð um um þau grunngildi sem við vitum að eru nauðsynleg til að skapa réttlátt samfélag þar sem allir eiga tækifæri.“