Hillary Clinton hefur tryggt sér stuðning 2.384 fulltrúa fyrir þing Demókrata, og verður því frambjóðandi flokksins í forsetakosningunum sem haldnar verða seinna í ár. Bernie Sanders hefur þá tryggt sér 1.568 fulltrúa. Þetta kemur fram í frétt CNN.

Fulltrúakerfið virkar á þann hátt að Demókratar í hverju ríki koma saman og velja sér fulltrúa til þess að fara á landsþing flokksins. Þetta er gert í gegnum bæði prófkjör og flokksfundi. Hver sá frambjóðandi sem fær flesta fulltrúa senda á landsþingið til að kjósa sig mun vera frambjóðandi flokksins.

Hillary hefur þegar skráð sig í sögubækurnar - en hún er fyrsta konan til þess að verða forsetaframbjóðandi fyrir stóran stjórnmálaflokk í Bandaríkjunum. Hún er þá sú eina í heil 240 ár. Allt lítur út fyrir að forsetaslagurinn verði þá milli hennar og Donald Trump.