Árið 2016 jókst eigið fé 400 ríkustu einstaklinga heimsins um 237 milljarða Bandaríkjadala eða jafnvirði tæplega 27 þúsund milljarða íslenskra króna.

Þetta kemur fram í frétt Bloomberg, en fréttastofan reiknar vísitölu (Bloomberg Billionaires Index) sem dregur 400 auðugustu einstaklinga heimsins saman í lista.

Flökt og sveiflur gefa færi á ævintýralegri ávöxtun fjárfesta, en skapa á sama tíma möguleika á gríðarlegu tapi.

Í þeim pólitísku og efnahagslegu sviptingum sem einkenndu árið sem var að líða – svo sem þjóðaratkvæðagreiðsla Breta um útgöngu úr Evrópusambandinu, hægjandi hagvöxtur í Kína og kjör Donalds Trump sem forseti Bandaríkjanna – nam samanlagt eigið fé einstaklinganna 4,8 trilljónum Bandaríkjadala, eða tæplega 500 þúsund milljörðum króna. Í byrjun árs 2016 nam upphæðin 4,4 trilljónum og jókst auður milljarðamæringanna um 5,7% á árinu.

Mest hagnaðist bandaríski fjárfestirinn Warren Buffet árið 2016. Miklar hækkanir á gengi hlutabréfa í flugfélögum og bönkum eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember jók eignarhlut fjárfestingarsjóðs Buffets, Berskhire Hathaway, um 11,8 milljarða dollara.

Persónulegur auður Buffets jókst um 19% á árinu og stóð í 74,1 milljörðum dollara í lok dags í gær. Samkvæmt vísitölu Bloomberg viðheldur Buffet stöðu sinni sem annar ríkasti maðurinn í heiminum.

Á eftir Warren Buffet í hagnaði á árinu koma tveir samlandar hans: Bill Gates, stofnandi og stjórnarformaður tölvufyrirtækisins Microsoft, og Harold Hamm, stofnandi orkufyrirtækisins Continental Resources.

Eigið fé Bill Gates jókst um 9,8 milljarða dollara á árinu og auðæfi Hamms jukust um 8,4 milljarða dollara. Miklar hækkanir í verði á orku á árinu leiddi til þess að auður Hamms jókst um 121,5% á árinu. Þess má geta að fjórir af fimm auðugustu einstaklingum í vísitölu Bloombergs eru Bandaríkjamenn.

Auðkýfingar nutu góðs af uppgangi á hlutabréfamörkuðum og hrávörumörkuðum á árinu. Samtals nam hagnaður bandarískra milljarðamæringa á hlutabréfamarkaði eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 77 milljörðum dollara. Alls jókst eigið fé 49 milljarðamæringa í hrávöruiðnaðinum um 80 milljarða dollara árið 2016.