John Fredriksen, ríkasti Norðmaðurinn, á að baki skrautlegan feril. Raunar má deila um hversu norskur hann sé þar sem hann afsalaði sér norskum ríkisborgararétti og tók upp kýpverskan ríkisborgararétt eftir áralangar deilur við norsk skattayfirvöld. Hann hefur auðgast ævintýralega á fjárfestingum í skipageiranum, sér í lagi á flutningum á olíu. Fredriksen fæddist árið 1944 í úthverfi Ósló. Móðir hans vann í mötuneyti og faðir hans var verkamaður á skipasmíðastöð. Fredriksen ætlaði sér alla tíð að ná langt. Hann hætti í námi 16 ára til og hóf að vinna. Ferill hans í flutningageiranum hófst þegar hann hóf að flytja fisk frá Íslandi til Hamborgar í Þýskalandi.

Bjargvættur Írana

Undir lok sjöunda áratugarins flutti Fredriksen til Beirút og hóf að flytja olíu fyrir Sádi-Araba og Írani. Þá flutti hann olíu fyrir bandaríska herinn í Víetnamstríðinu. Fredriksen stórefnaðist á styrjöld Írana og Íraka á níunda áratugnum. Hann var einn af fáum aðilum sem tilbúnir voru að flytja olíu fyrir Írani, m.a. vegna hættu á loftárásum frá íraska flughernum. Fredriksen er sagður hafa verið „líflína Ayatollah“ í stríðinu. Árið 1986 sökuðu norsk stjórnvöld hann um að hafa nýtt olíu viðskiptavina til að knýja áfram skip sín. Frediksen sat inni í fjóra mánuði en að lokum voru helstu ákæruliðirnir felldir niður. Fredriksen hefur sagt að ómögulegt sé að stunda viðskipti vegna skattpíningar norskra yfirvalda.

Lengi vel neitaði Fredriksen að hann ætti nokkur skip og sagðist vera að stunda flutninga fyrir ótilgreindra fjárfesta. Það breyttist árið 1996 þegar hann keypti sænska skipafélagið Frontline. Floti félagsins tífaldaðist að stærð á næstu fimm árum og fór úr sjö olíuflutningaskipum í sjötíu árið 2001. Flutningageirinn er afar sveiflukenndur, enda eru dæmi um að verð fyrir fraktflutninga hafi fallið um 80-90% á örfáum árum. Fredriksen látið hafa eftir sér að 42 af þeim 50 árum sem hann hafi starfað í skipaflutningum hafi gengið skelfilega. Í uppsveiflunni á fyrstu árum þessarar aldar seldi Fredriksen hlut í flutningafyrirtækjum sínum og keypti hluti í Marine Harvest, sem í dag er stærsta laxeldisfyrirtæki heims og byggði upp félagið Seadrill sem sérhæfir sig í smíði olíuborpalla á miklu dýpi, og var orðið það stærsta í heimi. Eftir verðfall á olíu fór félagið í greiðslustöðvun á síðasta ári. Félagið hefur nýlokið fjárhagslegri endurskipulagningu en Fredriksen hefur tapað tugum milljörðum króna á félaginu.

Býr á setri í miðri London

Fredriksen er búsettur í London. Árið 2001 keypti hann glæsivilluna The Old Rectory, í Chelsea-hverfinu í borginni, á 38 milljónir punda. Þar er að finna stærsta bakgarð í London í einkaeigu í London. Orrustan um Waterloo, árið 1815, er talin hafa verið skipulögð í garðinum. Roman Abramovich er sagður hafa boðið nálægt hundrað milljónir punda í villuna árið 2004 sem Fredriksen hafnaði. Þrátt fyrir að vera orðinn 74 ára er Fredriksen enn í fullu fjöri. Hann á 34 ára tvíburadætur sem hann segir að muni taka við rekstrinum þegar hann lætur af störfum.

John Fredriksen

  • Aldur: 74 ára
  • Auðævi: 880 milljarðar króna
  • Uppruni auðsins: Olíuflutningar.
  • 228. ríkasti maður heims

Nánar er fjallað um ríkustu menn Norðurlandanna í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .