Hagstofa Bretlands hefur bætt inn í þjóðhagsútreikninga sína vörum sem hafa orðið vinsælar með tilkomu hipster menningarinnar svokölluðu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá hagstofunni í dag en á sama tíma hefur hún hætt að safna gögnum um söluverð handfrjálsra gemsa af gömlu gerðinni, enda eru þeir orðnir það fátíðir að erfitt er að fá rétta mynd á verðþróun þeirra.

Það sem kemur í staðinn inn í neysluverðsvísitöluna eru til að mynda verð á jurtamjólk, gini og reiðhjólahjálmum, sem allt eru vinsælar vörur hjá hipsterum.

Frétt Bloomberg um málið segir hipstera nú eiga síðasta orðið þrátt fyrir að hafa þurft að þola aðhlátur fyrir reiðhjólin sín og vegleg skeggin.

Gin og reiðhjólahjálmar snúa aftur

Gin var áður tekið með í verðvísitöluna fyrir 13 árum síðan en í kjölfar mikilla vinsælda lítilla framleiðanda og hátíða tileinkaða áfengistegundinni hefur salan aukist á þessum drykk sem nú er hvað vinsælastur meðal ungra neytenda.

Sama á við um reiðhjólahjálma sem eru að koma aftur inn í vísitöluna eftir meira en áratugs fjarveru, en nú bættist einnig við jurtamjólk úr soja, hrís og hveiti, sem sýnir aukna neyslu á heilsufæði sem er vinsælt meðal hipstera og annarra þjóðfélagshópa.

Náið er nú fylgst með verðbólguþróun í Bretlandi þegar hún nálgast verðbólgumarkmiðið sem er 2%, en breska pundið hefur veikst um 18% síðan landið ákvað að yfirgefa Evrópusambandið, sem er farið að hafa áhrif á innflutning og hækkað neysluverðsvísitöluna um 1,8% í janúar.