Davíð Helgason er einn af stofnendum hugbúnaðarfyrirtækisins Unity Technologies, sem framleiðir hugbúnað sem gerir tölvuleikjaframleiðendum kleift að búa til tölvuleiki. Hann starfaði sem forstjóri fyrirtækisins til haustsins 2014, en þá ákvað hann að hætta sem forstjóri og situr hann nú í stjórn félagsins og tekur þannig þátt í stefnumörkun þess. Að sögn Davíðs ákvað hann að hætta sem forstjóri Unity til að hafa meiri tíma til að gera það sem honum þykir skemmtilegast, sem er að fjárfesta í sprotafyrirtækjum og leiðbeina þeim.

„Ég vissi að ég myndi á einhverjum tímapunkti enda í því að veita stofnendum sprotafyrirtækja ráðgjöf og var aðeins að því á meðan ég var forstjóri Unity, þó að ekki mikill tími hafi gefist í það á þeim tíma. Árið 2014 þótti mér réttur tími til að hætta sem forstjóri Unity og taka sæti í stjórn félagsins. Með því gafst mér tækifæri til að gera það sem mér þykir skemmtilegast, sem er að fjárfesta í sprotafyrirtækjum og veita þeim ráðgjöf.

Það vildi líka svo heppilega til að það fannst frábær maður til að taka við forstjórastarfinu, en hann hafði áður verið í stjórn félagsins. Við skiptum því í rauninni um hlutverk, hann tók við sem forstjóri og ég kom inn í stjórnina í hans stað. Við höfðum unnið náið saman í um það bil eitt ár þegar við skiptum um hlutverk. Þessi breyting hefur komið mjög vel út."

Hjálpar tæknilegum stofnendum sprotafyrirtækja

Davíð, sem er forritari, hefur staðið í þeim sporum að stofna tæknifyrirtæki frá grunni. Hann nýtir þá reynslu sína til að hjálpa stofnendum sprotatæknifyrirtækja með svipaðan bakgrunn og hann sjálfur, með því að veita þeim ráðgjöf.

„Eitt af mínum helstu áhugamálum er að hjálpa tæknilegum stofnendum sprotafyrirtækja. Oft eru stofnendur með tæknibakgrunn nauðsynlegir til að búa til ný fyrirtæki í tæknigeiranum og ég tel að það komi best út að þeir fái að stjórna fyrirtækjunum sjálfir, í stað þess að fá aðila sem eru menntaðir í viðskiptum til að halda utan um stjórnartaumana. Tæknilegir stofnendur þurfa þó á hjálp að halda við að læra helstu viðskiptaaðferðirnar. Ég byrjaði sem forritari og skil þeirra sjónarhorn og þau vandamál sem þeir glíma við. Ég tel mig því geta veitt þeim ráðgjöf, þar sem ég hef staðið í sömu sporum og þeir," segir Davíð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .