Fiskifræðingurinn Leif Nøttestad hjá norsku hafrannsóknastofnuninni, veltir því fyrir sér hvort túnfiskurinn hjálpi til við að safna makrílnum í stærri og þéttari torfur og auðveldi þar með veiðar á honum. Þetta kemur fram á vef FiskeribladetFiskaren.

Flest norsku makrílveiðiskipanna hafa tilkynnt um meiri meðafla af túnfiski í ár. Ástæðan gæti verið sú að túnfiskurinn leiti í æ ríkari mæli en áður inn á norskt hafsvæði þar sem er ríkulegt framboð af uppsjávarfiskum.Túnfiskurinn er sólginn í makríl, síld, sandsíli, brisling og kolmunna.

Túnfiskurinn kann best við sig þar sem uppsjávarfiskurinn er í torfum því hann kýs að éta eins mikið og hann getur á sem stystum tíma. Til að skýla sér fyrir árás óvinarins þéttir makríllinn sig enn frekar og það er hentugt fyrir fiskiskipaflotann sem er sækist eftir því að kasta á torfur en stundum getur verið of mikið af því góða, segir Nøttestad.