Nýsköpunarfyrirtækið Hjalteyri Sea Snack varð fyrst til að hljóta lán úr nýjum lánaflokki Byggðastofnunar, sem hleypt var af stokkunum í haust.

Frá þessu segir í frétt frá Byggðastofnun.

Hjalteyri Sea Snack framleiðir gæludýrafóður úr afsettu hráefni frá fiskvinnslum, þ. á m. laxi og þorski auk hrossaþara frá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum. Þá hefur fyrirtækið einnig þróað og framleitt sjávarsnakk með ýmsum bragðtegundum til manneldis, segir í frétt Byggðastofnunnar.

Nefndur lánaflokkur er ætlaður til stuðnings við nýsköpun í landsbyggðunum. Fyrsta lánið úr þessum nýja lánaflokki var undirritað í höfuðstöðvum Byggðastofnunar á Sauðárkróki, í gær.