Hjalti Þórarinsson, sem leiðir viðskiptaþróun á sviði gervigreindar hjá Microsoft, var kjörinn sem varamaður í stjórn Nýherja á aðalfundi félagsins. Hjalti var ennfremur kjörinn í stjórn Tempo, sem er dótturfélag Nýherja. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Nýherja.

Hjalti stundaði nám í rafmagns- og tölvuverkfræði frá 1995-1998 og lauk MBA námi frá MIT í Cambridge í Bandaríkjunum.

Hann var skipaður sölustjóri Microsoft árið 2013 fyrir öll sölumál við Lenovo ThinkPad og ThinkServer, og þar leiddi hann hóp sölumanna, og var ábyrgur fyrir yfir 100 milljörðum íslenskra króna í árlegum tekjum hjá Microsoft.

Hjalti leiðir í dag viðskiptaþróun á sviði gervigreindar hjá Microsoft, og sér þar um bæði stefnumál og samningagerð við ýmsa stóra viðskiptavini og samstarfsaðila Microsoft.

Þar má nefna nýlegan samning milli SoftBank og Microsoft sem Hjalti leiddi. Sá samningur er nær yfir bæði samstarf milli fyrirtækjanna á sviði vélmenna – en einnig notkun SoftBank á Microsoft Translator.

Á aðalfundi Nýherja, sem fram fór síðasta föstudag, var sjálfkjörið í stjórn félagsins, en hana skipa: Emilía Þórðardóttir, Guðmundur Jóhann Jónsson, Hildur Dungal, Ívar Kristjánsson, formaður, Loftur Bjarni Gíslason og Hjalti Þórarinsson.