*

föstudagur, 19. janúar 2018
Innlent 29. júní 2017 11:54

Hjöðnun verðbólgu vegna samkeppni

Bæði styrking krónu og vaxandi samkeppni hefur leitt til þess að verðbólga hefur hjaðnað nokkuð síðustu mánuði.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Bæði styrking krónu og vaxandi samkeppni hefur leitt til þess að verðbólga hjaðnaið nokkuð síðustu mánuði þrátt fyrir verulega hækkun húsnæðisverðs og vaxandi launakostnað hérlendis. Útlit er fyrir að þessir kraftar takist áfram á í verðlagsþróuninni, en að á heildina litið muni verðbólga áfram verða hófleg hér á landi að því er kemur fram í greiningu Íslandsbanka á verðbólgutölum Hagstofunnar sem birtust nú fyrir skömmu. 

Samkvæmt þeim mælist vísitala neysluverðs óbreytt í júní frá fyrri mánuði Verðbólga mælist nú 1,5% og var 1,7% í maí. Hefur því verðbólga ekki mælst minni hér á landi frá ágúst í fyrra. Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,41% í júní og mælist því 3,1% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði þegar skoðað er vísitöluna án húsnæðis. 

Í greiningu Íslandsbanka segir að opnun Costco er í raun fyrst og fremst nýjasta skrefið í þróun í átt að meiri samkeppni á íslenskum smásölumarkaði sem staðið hefur undanfarin ári. „Bæði má þar benda komu ýmissa erlendra verslunarkeðja hingað til lands á síðustu árum, vinsældir fatakaupa í utanlandsferðum landans og síðast en ekki síst vaxandi hlutdeild alþjóðlegra netverslana í innkaupum íslenskra heimila. Þessi þróun hefur aukið kaupmátt íslenskra heimila töluvert, og er sú kaupmáttaraukning í raun vanmetin í mælingum Hagstofu þar sem þær taka ekki til netverslunar erlendis frá eða fatakaupa í utanlandsferðum,“ er tekið fram þar. 

Útlit fyrir hækkandi takt

Gert er ráð fyrir því að verðbólgutakturinn muni hækka aðeins næstu mánuðina að mati Greiningar Íslandsbanka. Verðbólga mun þó vera undir 2,5% markmiði Seðlabanka Íslands að þeirra mati. Sterkari króna, aukin samkeppni á smásölumarkaði og hægari lækkun íbúðaverðs en undanfarna mánuði munu samanlagt halda aftur af verðbólgunni á næstunni. 

„Við spáum 0,1% lækkun vísitölunnar í júlí, 0,5% hækkun í ágúst og 0,3% hækkun í september. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,7% í septembermánuði,“ segir í greiningu bankans.