Finnur Pálmi Magnússon, nýr framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Meniga, sem mun jafnframt taka sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins, hefur síðustu fimm árin starfað sem vöruhönnuður hjá fjártæknifyrirtækinu. „Með þessu er verið að lyfta vöruþróuninni hærra upp í fyrirtækinu en við höfum verið nokkrir vöruhönnuðir og heyrt undir viðskiptaþróun,“ segir Finnur um stöðuhækkunina.

„Mín verkefni verða að tryggja að sýnin sé skýr og vel skilgreind fyrir alla sem eru að vinna í nýþróun og forgangsraða henni ásamt því að vera í samskiptum við viðskiptavini um hvað þeir vilja fá, en það eru margir af stærstu bönkum Evrópu. Sýnin er að hjálpa fólki með fjármálin og hafa jákvæð áhrif á líf fólks og bæta fjármálaheilsu notenda sem eru þegar um 50 milljónir um allan heim.“

Finnur hefur starfað að vefhönnun frá árdögum alnetsins. „Ég fór í tölvunarfræðina árið 1997 og strax eftir fyrstu önnina var ég kominn í vefpælingar, því það var mikill hvati fyrir mig að vinna að því að búa til eitthvað sem hefði áhrif á fólk,“ segir Finnur sem síðar var tæknistjóri Stjórnlagaráðs.

„Þess vegna varð ég strax heillaður af vefnum, bjó til mína fyrstu vefsíðu þá þegar og var búinn að stofna mína eigin vefstofu eftir fyrstu önnina í náminu. Ég var eiginlega að vinna fulla vinnu með náminu eftir það, sem þar af leiðandi þýddi að ég tók mér alveg drjúgan tíma að klára tölvunarfræðina. Síðar tók ég þátt í að smíða Tilveruna sem var þá einn vinsælasti vefur landsins og skömmu eftir aldamótin leiddi ég vinnuna í tveimur stærstu vefverkefnum þess tíma hjá Icelandair og Símanum sem þá voru að innleiða risastór ný vefumsjónarkerfi. Þó að ég sé náttúrulega bara tölvunörd í grunninn var ég þarna fljótlega kominn í þá stöðu að vera að túlka kröfur fyrirtækjanna og hafa samskipti við forritarana,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .