Í úttekt Ríkisendurskoðunar vegna rekstrarársins 2013 kom fram fram að langflest hjúkrunarheimili landsins vou rekin með tapi sem samsvaraði rúmlega 1 milljarði það ár. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu í dag. Jafnframt kemur fram í tilkynningunni að aðeins tvö heimili telji sig uppfylla mjög vel kröfulýsingu velferðarráðuneytis um lágmarksviðmið þjónustunnar og megi því leiða líkum að því að rekstrartapið væri umtalsvert meira ef öll hjúkrunarheimilin uppfylltu lágmarksviðmið kröfulýsingarinnar.

Vilja láta óháðan aðila kostnaðargreina þjónustuna

SFV hafa óskað eftir því að samningsaðilar létu óháðan aðila kostnaðargreina þjónustuna til að fá úr því skorið hvað hún kostar í raun, enda hafa hjúkrunarheimilin bent á að fjárframlög til heimilanna sé allt of lág til að þau geti mætt þeim kröfum sem gerð er um þjónustuna. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa ekki fallist á að taka þátt í slíkri faglegri og óháðri úttekt.  SVF benda þó á að í lögum um Sjúkratryggingar Íslands sé þó beinlínis ætlast til þess að aðkeypt þjónusta af þessu tagi sé kostnaðargreind. Ríkisendurskoðun hefur einnig ítrekað bent á að gerð þjónustusamninga sé enn ólokið og að kostnaðargreining kröfulýsingarinnar hafi aldrei farið fram.

Af þeim sökum ákváðu Grund og Hrafnista að leita til ráðgjafarfyrirtækisins Nolta um að framkvæma kostnaðargreiningu á rekstri hjúkrunarheimilis sem uppfyllti allar opinberar kröfur til þjónustunnar.  Skýrsla Nolta sýnir að hækka þarf greiðslur um u.þ.b. 30-40% eigi hjúkrunarheimilin að geta fjármagnað þá þjónustu sem gildandi kröfulýsing velferðarráðuneytisins og opinber mönnunarmódel landlæknis segja til um.

Ríkisstjórnin hefur boðað úrbætur í fjárframlögum til hjúkrunarheimilanna á þessu ári og mun kynna þær á næstunni. Kostnaðarútreikningur Nolta benda til að auka þurfi framlögin um að minnsta kosti 9 milljarða króna. Að mati SFV verður ríkisvaldið að gera það upp við sig hvaða þjónustu það vill kaupa af hjúkrunarheimilunum enda ólíklegt að hægt sé að bæta við svona miklu fjármagni í málaflokkinn. Það sé mjög mikilvægt út frá hagsmunum heimilisfólks og aðstandenda, rekstraraðila hjúkrunarheimilanna og starfsfólks þeirra og ekki síst skattgreiðenda.