Gengi hlutabréfa bandaríska tæknirisans Apple stendur nú í hæstu hæðum. Þegar þetta er skrifað stendur gegni bréfanna í 162,84 dollurum á hlut og hefur hækkað um 0,8% það sem af er degi.

Í gær var greint frá því að Apple myndi að öllum líkindum kynna nýjar tegundir iPhone síma þann 12. september næstkomandi. Töluverðar vangaveltur höfðu verið uppi um hvort að útgáfa nýrra síma myndi tefjast vegna vandræða í framleiðslu og skorts á íhlutum.

Búist er við því að fyrirtækið kynni iPhone 7s og 7s Plus auk 10 ára afmælisútgáfu sem gert er ráð fyrir að muni hljóta nafnið iPhone 8. Greiningarfyrirtækið IDC gaf í dag út spá þar sem gert er ráð fyrir að sala á iPhone muni vaxa um 9,1% á næsta ári vegna útgáfu nýrra síma. Reynist spáin rétt yrði þetta mesti vöxtur í sölu iPhone frá árinu 2015.

Það sem af er ári hefur gegni bréfa Apple hækkað um 40,5%. Fyrirtækið er verðmætasta fyrirtæki heims af þeim sem skráð eru á markað og nemur heildarmarkaðsverðmæti þess nú um 816 milljörðum dollara.

Þess má geta að í fjögur skipti hefur Apple gefið út jöfnunarhlutabréf. Það gerðist síðast árið 2014 þegar sjö bréf voru gefin út fyrir hvert bréf. Ef ekki hefði verið fyrir útgáfu jöfnunarbréfanna myndi hver hlutur í fyritækinu kosta rúmlega 9.000 dollara. Frá því að félagið var skráð á markað árið 1980 hefur verðmæti þess rúmlega fjögurhundruðfaldast.