Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,28% í viðskiptum dagsins en heildarvelta í Kauphöllinni var 1,9 milljarður í dag. Nær helmingur veltunnar var vegna viðskipta með hlutabréf Marels sem hækkaði um rúm 2%, en Marel hefur verið á mikilli siglingu frá áramótum og hækkað um rúm 20%. Mest hækkuðu bréf Regins, sem birti ársuppgjör í gær, en samtals nam veltan með bréf félagsins  340 milljónum króna. Hlutabréf Icelandair hækkuðu um 1,38% eftir mikla lækkunarhrinu frá því að uppgjör flugfélagsins var birt í síðustu viku.

Arion banki birti ársreikning eftir lokun Kauphallar í gær en bréf bankans lækkuðu mest í dag eða um 2,6% í viðskiptum fyrir 176 milljónir króna. Hlutabréf Sýn lækkuðu um rúmt 1% í afar litlum viðskiptum fyrir 244 þúsund krónur. Þá lækkaði Síminn um 0,8%.