Óhætt er að segja að líflegt hafi verið í kauphöllinni það sem af er degi. 15 af 18 félögum á aðalmarkaði hafa hækkað, flest allverulega, en Icelandair hefur lækkað um 11%. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 3,1%, og heildarvelta viðskipta nemur 1,9 milljarði. Þá hefur krónan styrkst um yfir 2%.

Festi hefur hækkað mest allra félaga, um rétt rúm 10% í 239 milljón króna viðskiptum, en þar á eftir koma Hagar með 8,4% hækkun í 196 milljóna viðskiptum, Reitir með 7% hækkun í 274 milljóna milljóna viðskiptum, og Reginn með 6,4% hækkun í 48 milljóna viðskiptum.

Icelandair hefur hinsvegar lækkað um 13,5% í 131 milljóna króna viðskiptum, en í gærmorgun var tilkynnt um að ekkert yrði úr yfirtöku flugfélagsins á sínum helsta innlenda keppinaut, Wow air, og í gærkvöldi var tilkynnt að bráðabirgðasamkomulag hefði náðst um að Indigo Partners, eigandi ungverska flugfélagsins Wizz air, fjárfesti í Wow.

Krónan hefur styrkst um 2,04% gagnvart evru, 1,94% gagnvart Bandaríkjadal, og 2,11% gagnvart sterlingspundinu.