Hlutabréfamarkaðir í Asíu tóku við sér í nótt í kjölfar þess að margir álitu Hillary Clinton hafa unnið forsetakappræðurnar á mánudagskvöld í Bandaríkjunum, sem létti áhyggjur margra á hlutabréfamarkaðinum.

„Markaðsaðilar eru ánægðir með að stefna hennar felur í sér minni óvissu. Sumar af rótækari stefnumálum Trump hins vegar þýða að hann verður að hafa stjórn á þinginu, sem virðist ólíklegt nú og markaðurinn virðist hafa minni áhyggjur,“ sagði Chris Weston, ráðgjafi hjá IG Markets.

Í kjölfar þess að framvirkir samningar S&P 500 vísitölunnar hækkuðu í Bandaríkjunum hækkuðu hlutabréf á mörkuðum Asíu einnig. Ýmis fyrirtæki á mörkuðum Hong Kong sem framleiða fyrir Bandaríkjamarkað sáu gengi bréfa sinna hækka einna mest. Má þar nefna Li & Fung sem framleiðir fyrir mörg bandarísk smásölufyrirtæki hækkaði um 4,12%.

Helstu vísitölur svæðisins:

  • Nikkei vísitalan í Japan hækkaði um 0,84%
  • Kospi vísitalan í Suður Kóreu hækkaði um 0,77%
  • Hang Seng vísitalan í Hong Kong hækkaði um 1,14%
  • Dow Jones Shanghai vísitalan hækkaði um 0,57%
  • FTSE China A50 vísitalan hækkaði um 0,48%
  • S&P/ASX 200 vísitalan í Ástralíu lækkaði hins vegar um 0,47%
  • Dow Jones New Zealand vísitalan lækkaði einnig um 0,17%

Markaðir í Taiwan voru lokaðir í gær.