Stjórn Stoð hf., hefur tekið ákvörðun um að ógilda öll núverandi hlutabréf í félaginu, þar sem þau hafa glatast og ný hlutabréf gefin út í staðinn. Þetta kemur fram í Lögbirtingarblaðinu.

„Það kom upp í áreiðanleikakönnun þegar við vorum að kaupa Stoð að hluti af bréfunum sjálfum fannst ekki. Þannig þetta er í raun bara lögfræðileg leið til að kalla inn pappírinn. Til að tryggja að þau dúkki ekki upp seinna," segir Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas í samtali við Viðskiptablaðið.

Lyfjafyrirtækið Veritas Capital keypti allt hlutaféð í stoðtækjafyrirtækinu Stoð hf. í september síðastliðnum.

Stoð er þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði, á Íslandi og í Danmörku, sem stofnað var árið 1982. Félagið sérhæfir sig í heildarlausnum fyrir fatlaða, aldraða, íþróttamenn og aðra og leggur metnað í sérhönnun og framleiðslu á vörum sem eru til þess fallnar að auka lífsgæði viðskiptavina. Stoð framleiðir hvers konar spelkur og gervilimi, sérsmíðar skó og innlegg, útvegar tilbúna bæklunarskó og selur hjálpartæki og smærri stoðvörur. Hjá Stoð starfa um 35 manns.

Veritas sérhæfir sig í rekstri fyrirtækja á sviði heilbrigðisþjónustu. Veritas er móðurfélag fyrirtækjanna Vistor hf., Distica hf., Artasan ehf. og MEDOR ehf.