Hlutabréf í Icelandair Group hafa hækkað um 3,46% það sem af er dags í viðskiptum upp á rúman milljarð króna.

Bréf fyrirtækisins hafa fallið gríðarlega í verði frá því í lok apríl og sérstaklega eftir að fyrirtækið birti síðasta ársfjórðungsreikning sinn og spáði í leiðinni versnandi afkomu.

Eftir að bréf félagsins tóku eilítið við sér í kjölfar stýrivaxtalækkunar Seðlabankans síðastliðinn miðvikudag höfðu þau verið á talsverðri niðurleið og fallið um 7,7% þar til þau tóku eilítið við sér í gær. Þau hafa síðan rokið upp í dag og kann þar að vera um jákvæð viðbrögð við aðstæðum í eldfjallinu Kötlu að ræða. Fyrr í vikunni fóru af stað vangaveltur um að von væri á Kötlugosi fljótlega en eldfjallafræðingar hafa nú dregið úr slíkum áhyggjum.

Almennt hefur dagurinn verið góður á hlutabréfamarkaði í dag og er úrvalsvísitalan búin að hækka um 1,63% þegar fréttin er skrifuð.