Gengi hlutabréfa Northern Rock hélt áfram að falla í gær og höfðu bréf bankans lækkað um 35% við lokun kauphallarinnar í London, en síðastliðinn föstudag nam lækkunin 39%. Ummæli forsvarsmanna Northern Rock og Alistair Darlings, fjármálaráðherra Bretlands, um að viðskiptavinir bankans þyrftu ekki að hafa áhyggjur af sparifé sínu, höfðu ekki tilætluð áhrif: Miklar biðraðir mynduðust fyrir utan útibú bankans, sem hefur einkum sérhæft sig í húsnæðislánum, og er talið að viðskiptavinir Northern Rock hafi tekið út meira en tvo milljarða punda frá því á fimmtudaginn þegar bankinn tilkynnti að hann ætti við lausafjárskort að stríða. Í kjölfarið veitti Englandsbanki honum neyðarlán til að bjarga bankanum frá gjaldþroti.

Alþjóðlegu matsfyrirtækin þrjú - Moodys, Standard & Poors og Fitch - hafa öll lækkað lánsmat sitt fyrir fjárhagslegan styrk bankans. Fjármálaskýrendur gera ráð fyrir því að neikvæðar fréttir af Northern Rock muni halda áfram að berast á næstu dögum. Howard Wheeldon, sérfræðingur hjá BGC Partners í London, segir í samtali við The Daily Telegraph að "þangað til bankanum verður skipt upp - annaðhvort í formi þess að fasteignahluti hans verður yfirtekinn af öðrum banka eða fyrirtækið tekið yfir í heilu lagi - þá mun gengi hlutabréfa bankans halda áfram að falla." Gengi hlutabréfa í öðrum fasteignalánafyrirtækjum á Bretlandi - meðal annars Alliance & Leicester, HBOS og Bradford & Bingley - lækkaði einnig töluvert í gær.

Greiningaraðilar eru þess fullvissir að stjórnendur Northern Rock séu um þessar mundir að leita að hugsanlegum kaupendum að bankanum til að bjarga honum frá gjaldþroti. Englandsbanki hefur greint frá því að staðið verði við neyðarlán bankans upp á allt að 4 milljarða punda til Northern Rock enda þótt breyting verði á eignarhaldi félagsins. Þau skilaboð Englandsbanka munu því aðeins auka líkurnar á því að Northern Rock verði selt á næstu misserum. Sérfræðingar telja ólíklegt að áhugasamir kaupendur verði reiðubúnir að greiða meira en 400 pens fyrir hlutinn. Í gær stóð gengi bréfanna í ríflega 282 pensum á hlut og hafði þá lækkað úr 650 pensum frá því á fimmtudaginn.