Hlutabréf í norska lággjaldaflugfélaginu Norwegian Air hafa fallið um nærri þriðjung í kauphöllinni í dag, að því er kemur fram í frétt Financial Times í morgun . Verð félagsins hefur ekki verið lægra síðan í júní 2012, en bréfin tóku dýfu í kjölfar þess að félagið tilkynnti nýtt skuldabréfaútboð að verðmæti þriggja milljarða norskra króna eða sem samsvarar ríflega 40 milljörðum króna.

Útboðið er viðbrag við miklu rekstrartapi félagsins á síðasta ári en áætlað er að tapið nemi um 3,8 milljörðum norskra króna sem jafngildir rúmum 50 milljörðum íslenskra króna. Þetta mikla tap var tilkynnt í síðustu viku og lækkaði verð félagsins um rúm 21% í þeirri viku.

Nú þegar hafa tveir stærstu hluthafar félagsins skuldbundið sig til þátttöku í útboðinu. Milljarðamæringurinn og framkvæmdastjórinn Bjorn Kjos og stjórnarformaðurinn Bjorn Halvor Kise hyggjast í sameiningu fjárfesta fyrir 343 milljónir norskra króna. Aðrir hluthafar hafa meldað þátttöku fyrir 267 milljónir norskar krónur.