Á fyrstu mínútum eftir að markaðir opnuðu í hlutabréfamörkum Bretlands, eftir að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar þar í landi voru ljósar, hrundi FTSE 100 vísitalan um meira en 8%. Þó náði hún sér aðeins aftur á strik undir miðjan morgun.

Bankarnir, pundið og evran hrundu í verði

Bankastofnanir eins og Barclays og RBS sáu hlutabréf sín lækka um 30% til að byrja með þó seinna hefði lækkunin jafnast út niður í um 17%. Jafnframt hrundi breska pundið og náði það á einum tímapunkti 1,3236 dollurum sem er lækkun um 10% en það hefur ekki verið jafn lágt síðan árið 1985.

Fyrirfram höfðu fjárfestar veðjað á sigur aðildarsinna og hafði pundið náð 1,5 Bandaríkjadölum á tímabili. Jafnramt var mesta lækkun evrunnar á einum degi síðan gjaldmiðillinn kom til sögunnar, eða um 3,3% gagnvart Bandaríkjadal.

Seðlabankinn tilbúinn að grípa inní

Niðurstöðurnar höfðu einnig áhrif á húsnæðismarkaðinn, og lækkuðu hlutabréf í Bovis Homes um 50%, en hlutabréf í Bovis Homes lækkaði um meira en helming. Ávöxtunarkrafa breskra ríkisskuldabréfa náði nýju lágmarki.

Breski seðlabankinn tilkynnti að þeir væru að fylgjast vel með stöðu mála og myndu grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að styðja við fjármálastöðugleika.

Fjárfestar leita í öryggi

Áhrifanna gætti jafnframt í öðrum Evrópulöndum, vísitölur í París og Frankfurt lækkuðu á tímabili báðar um 8% og seðlabanki Sviss greip inní markaðinn til að ná gengi svissneska frankans stöðugu á ný eftir að gengi hans hafði hækkað.

Fjárfestar virðast vera að leita víðar í stöðugar fjárfestingar en gull hækkaði í virði um 7% en að sama skapi lækkaði olíuverð um 5,2% á Brent hráolíu.