Hlutabréfakaup eru í vaxandi mæli fjármögnuð með lánsfé en útlán innlánsstofnana með veði í hlutabréfum jukust um rúmlega 100 milljarða króna milli ársloka 2003 og 2004. Útlán banka og sparisjóða með veði í hlutabréfum námu um 17% af markaðsvirði skráðra hlutabréfa í Kauphöll Íslands í árslok 2004 en samsvarandi hlutfall í árslok 2003 var 11%. Þetta kemur fram í úttekt Seðlabankans á fjármálastöðugleika á Íslandi sem kynnt var í gær.

Heildarmarkaðsvirði skráðra hlutabréfa í Kauphöll Íslands nam tæpum 1.100 milljörðum króna í lok ársins. Því lætur nærri að af þeirri tölu séu tæpir 200 milljarðar króna lánsfé.

Fjármögnun hlutabréfakaupa með lánsfé á sinn þátt í þeirri miklu verðhækkun sem orðið hefur á íslenskum hlutabréfamarkaði á síðustu tveimur árum. Þegar eigið fé þrýtur og gripið er til lánsfjár eru fleiri peningar í eltingarleik við eignirnar sem hækkar eðlilega verð þeirra. Þessum eignum hefur vel að merkja fækkað vegna afskráninga úr Kauphöllinni. Samsvarandi þróun hefur mátt sjá að fasteignamarkaðnum að undanförnu og hlutabréfamarkaðnum þar sem aukið lánsframboð hefur leitt til mikillar verðhækkunar á húsnæði.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.