Hlutabréf hækkuðu á mörkuðum í Asíu í nótt þegar áhyggjur af áhrifum úrsagnar Bretlands úr Evrópusambandinu hjöðnuðu.

Hækkanir í öllum kauphöllum

Japanska TOPIX 500 vísitalan hækkaði um 1,94% og Nikkei vísitalan hækkaði um 1,59%. Jafnframt hækkaði Hang Seng vísitalan í Hong Kong um 1,31%, Kospi vísitalan í Suður Kóreu hækkaði um 1,04% og vísitalan í Shanghai, SHCOMP, hækkaði um 0,65% meðan ástralska S&P/ASX 200 vísitalan hækkaði um 0,77%.

Breska pundið hækkaði eilítið gagnvart Bandaríkjadal í nótt og stendur nú í 1,3383 dölum hvert pund.

Fjárfestar færðu sig áfram í örugga höfn og hækkaði gullverð um 0,40% sem og japanska yenið hækkaði eilítið gagnvart Bandaríkjadal framan af þó það hafi lækkað nú um 0,16% í 102,57 yen fyrir hvern dal.

Forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe, hafði fyrr í dag sagt fjármálaráðherra sínum og seðlabankastjóra landsins að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að styðja við efnahagslífið og fjármálamarkaðina.