Hlutabréfamarkaðir í Asíu tóku við sér í nótt eftir miklar hækkanir á Bandaríkjamarkaði í gær. Þannig hækkaði hlutabréfavísitalan í Shanghai í Kína um 5,34% í viðskiptum dagsins og er hún aftur komin yfir 3.000 stig. Stendur hún nú í 3.084 stigum.

Gengi Hang Seng-vísitölunnar í Hong Kong hækkaði einnig mikið, eða sem nemur 3,6%. Þá hækkaði gengi Nikkei-vísitölunnar í Tókýó um 1,08%.

Gengi hlutabréfa á Wall Street í Bandaríkjunum hækkaði mikið síðustu klukkustundina fyrir lokun þar ytra í gær. Dow Jones-vísitalan hækkaði um 4%, S&P 500-vísitalan hækkaði um 3,9% og Nasdaq-vísitalan um 4,2%.

Þá hefur gengi hlutabréfa í Evrópu einnig hækkað frá því að markaðir opnuðu þar í morgun. FTSE-vísitalan í Lundúnum hefur nú hækkað um 2,01%, Dax-vísitalan í Frankfurt um 2,75% og Cac-vísitalan í París um 2,51%.

Hægt er að sjá yfirlit helstu hlutabréfavísitalna á vef BBC .