Hlutabréfamarkaðurinn í Japan hækkaði í dag eftir að vonir kviknuðu um að áætlaðum skattahækkunum verði frestað.

Forsætisráðherra landsins, Shinzo Abe, vill ekki að söluskattur fari úr 8% í 10% í apríl á næsta ári þó skattahækkunin hafi átt að koma jafnvægi á ríkisfjármálin. Hefur þrýstingur aukist á forsætisráðherrann að fresta hækkuninni til að reyna að minnka líkur á verðhjöðnun í landinu og telja sumir að frestunin verði tilkynnt á miðvikudag þegar þinghlé hefst.

Nikkei vísitalan hafði við lok hlutabréfamarkaða þar í dag hækkað um 1,39% í 17.068,02 stig, höfðu þá 195 hlutabréf hækkað meðan 23 lækkuðu. Bréf í ýmsum bönkum ásamt tæknifyrirtækjum eins og Panasonic, Sony og Sharp hækkuðu. Einnig hækkuðu bréf í neysluvörufyrirtækjum eins og Fast Retailing, sem á fataheildsöluna Uniqlo, um 1,31%.

Í dag birtust nýjar tölur um að verslun í Japan hafði minnkað um 0,8% í apríl frá síðasta ári, sem er samt minna en þau 1,2% sem spáð hafði verið.