Miklar hækkanir hafa orðið á hlutabréfamarkaði það sem af er degi og er velta á markaðnum mikil. Skömmu fyrir hádegi í dag nam velta á hlutabréfamarkaði rétt rúmum 2,9 milljörðum króna og þar af var velta í viðskiptum með bréf Reita 1.274 milljónir króna.

Gengi bréfa allra félaga í kauphöll hefur hækkað eða staðið í stað í dag og er hækkunin mest á bréfum Reita, eða 4,59%. Þá hafa bréf Eikar hækkað um 2,37% og Regins um 2,51%. Gengi bréfa tryggingafélaganna hefur einnig hækkað verulega, en gengi bréfa VÍS hefur hækað um 3,46%, TM um 3,01% og Sjóvár um 2,51%.

Ástæðurnar fyrir þessum hækkunum munu vera nokkrar. Í fyrsta lagi ber að nefna tvær fréttir af fasteignafélögum frá því í gær. Í fyrsta lagi var greint frá því að Reitir hefðu gengið til samninga við eigendur tveggja fasteignasjóða í eigu Stefnis um kaup Reita á tilteknum fasteignum. Verði af kaupunum verður heildarvirði þeirra um 17.980 miljónir króna og verða þau að fullu fjármögnuð með lánsfé og yfirtöku skulda.

Þá greindi Eik frá því í gær að áfangi hefði náðst í endurfjármögnun Eikar með útgáfu 3,3 milljarða króna skuldabréfaflokks, sem ber fasta 3,3% verðtryggða vexti. Í september greiddi Eik upp lán við sjóð í eigu Stefnis sem bar 4,95% vexti.

Hækkanir á gengi bréfa tryggingafélaganna munu að hluta til vera afleiðing af þeim hækkunum sem orðið hafa á gengi fasteignafélaganna tveggja, en sem dæmi má nefna að Eik er með stærstu einstöku hlutabréfaeignum VÍS. Þá hafa töluverðar hækkanir orðið á skuldabréfamarkaði, en tryggingafélögin eiga einnig verulegar fjárhæðir í þeim verðbréfum.

Að lokum hafa viðmælendur Viðskiptablaðsins nefnt að almennt ríki bjartsýni á markaði varðandi uppgjör þriðja ársfjórðungs, mikið fjármagn sé í leit að fjárfestingu og allt vinni þetta saman að hækkununum sem orðið hafa í dag, sem og undanfarna daga og vikur.