Gengi hlutabréfa í norska olíufyrirtækinu Statoil eru í sögulegum hæðum í Kauphöllinni í Osló í kjölfar ákvörðunar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að draga Bandaríkin út úr kjarnorkusamkomulaginu við Íran. Nafni fyrirtækisins verður breytt í dag í Equinor ASA, en það er gert til þess að losna við vísun í olíu úr nafni félagsins sem hyggst í auknum mæli vinna orku á annan hátt.

Trump tilkynnti ákvörðun sína þann 8. maí síðastliðinn. Daginn eftir hækkaði gengi bréfa í Statoil um 3,2%, úr 208 norskum krónum á hlut í 214,6 krónur á hlut. Hafði hlutabréfaverð fyrirtækisins ekki náð þeim hæðum síðan í maí 2008.

Síðan þá hefur hlutabréfaverð Statoil farið hækkandi og er gengi bréfa í félaginu nú 220,8 norskar krónur á hlut. Statoil, sem er tvískráð í Osló og í kauphöllinni í New York, er 67% í eigu norska ríkisins. Markaðsvirði félagsins í Kauphöllinni í Osló er um 731,3 milljarðar norskra króna eða því sem nemu 9.419 milljörðum íslenskra króna.

Hluthafar norska olíufyrirtækisins Statoil munu samþykkja í dag tillögu stjórnar félagsins um að breyta um nafn, úr Statoil í Equinor ASA. Nafnabreytingin er hugsuð til að fá fleira tæknimenntað fólk til að vinna fyrir fyrirtækið. Jafnframt tengist nafnabreytingin ákvörðun fyrirtækisins um að færa sig í auknum mæli til orkuframleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, þá sérstaklega vindorku.

Vikuhækkunin á Statoil nemur 5,6%, og mánaðarhækkunin 10,4%. Hækkunin það sem af er ári nemur 26,6% og síðustu tólf mánuði nemur hækkunin 50,8%.