S&P 500, Dow Jones og Nasdaq hlutabréfavísitölurnar náðu nýjum hæðum seinni partinn í dag eftir góð milliuppgjör fyrirtækja á borð við McDonalds og Caterpillar fyrir annan ársfjórðung komu út fyrir opnun markaða í dag. Gengi hlutabréfa McDonalds hefur hækkað um 5,16% og Caterpillar um 5,58%.

S&P 500 vísitalan stendur nú í 2.480 stigum og hefur hækkað um  10,77% það sem af er ári. Dow Jones vísitalan stendur í 21.637 stigum og hefur hækkað um 9,51% frá áramótum. Þá hefur Nasdaq vísitalan hækkað um 19,3% það sem af er ári og stendur nú í 6.422 stigum.

Í samtali við Reuters fréttastofuna segir Ken Moraif yfirgreinandi hjá eignastýringarfyrirtækinu Money Matters að afkoma fyrirtækja á öðrum ársfjórðungi sé betri en markaðsaðilar hafi búist við og það hafi orðið til þess að ýta hlutbréfaverði upp. „Ég hef þó áhyggjur af því að svo virðist sem tæknifyrirtækin geti ekki gert neitt rangt. Þegar þú ert með fá verðmæt fyrirtæki þá mun það gerast á endanum að hlutabréfaverð þeirra á eftir að verða óraunhæft."