Bandarísku hlutabréfavísitölurnar S&P 500 og Nasdaq Composite náðu nýjum hæðum við lok markaða í gær í kjölfar hækkunar olíuverðs og hækkunar á gengi tæknifyrirtækja.

Hækkaði S&P 500 vísitalan um 0,48%, bætti við sig 11,42 punktum og endaði í 2.402,32 punktum og Nasdaq Composite vísitalan hækkaði um 28,44 punkta eða 0,46% og endaði við lok viðskipta í 6.149,67 punktum.

Í kjölfar þess að olíuframleiðsluríkin Rússland og Sádi Arabía hafa samþykkt 9 mánaða framlengingu á framleiðslutakmörkunum hækkaði olíuverð og hafa fyrirtæki í olíugeiranum og tæknigeiranum drifið hækkanir vísitalnanna mest áfram.

Hefur gengi bréfa Cisco Systems, sem er leiðandi í vírusvörnum, hækkaði mikið í kjölfar þess að tölvuvírus hefur herjað á heimsbyggðina frá því á föstudag, líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá . Fór gengi bréfa fyrirtækisins upp um 2,33% á hlutabréfamörkuðum í gær, en hækkunin nam 3,80% þegar mest var á milli föstudags og mánudags.