Bandarískur fjárfestingasjóður hefur lagt 66° Norður nýtt hlutafé fyrir 3,2 milljarða króna, að því er kemur fram í frétt í Markaðinum . Sjóðurinn festi kaup á minnihluta í félaginu síðastliðið sumar og með hlutafjáraukningunni fer sjóðurinn með tælpega helmingshlut í félaginu. Nafn sjóðsins hefur ekki verið upplýst en í frétt Markaðarins segir að sjóðurinn hafi ekki komið að fjárfestingum á Íslandi.

Helgi Rúnar Óskarsson framkvæmdastjóri 66° Norður er ásamt eiginkonu sinni Bjarney Harðardóttir enn meirihlutaeigandi félagsins, en hjónin keyptu fyrst í félaginu árið 2011 og eignuðust það síðan að fullu tveimur árum síðar. Markaðurinn hefur eftir Helga Rúnari að hlutafjáraukningin hafi klárast í desember sl. og hún komi til í beinu framhaldi af samkomulagi við fjárfestingasjóðinn um að tryggja fjármögnun á áframhaldandi uppbyggingu félagsins erlendis.

Helgi segir jafnframt að afkoma félagsins hafi batnað á síðasta ári og tekjur aukist. Árið 2017 námu tekjur 66° Norður tæpum 3,9 milljörðum króna, en félagið rekur tíu verslanir hér á landi og tvær í Kaupmannahöfn. Fyrirtækið var rekið með 115 milljón króna tapi það ár en EBITDA var jákvæð um tæplega 161 milljónir króna. Heildareiginir í árslok 2017 voru um 3,3 milljarðar króna en eiginfjárhlutfall félagsins var 3,8%.