Eftir samfellda fjölgun skráninga hlutafélaga og einkahlutafélaga frá árinu 2010, virðast nýjustu tölur benda til að þeim sé byrjað að fækka á ný.

Árið 2017 fækkaði nýskráðum hlutafélögum og einkahlutafélögum í fyrsta skipti eftir samflellda aukningu á milli ára frá árinu 2010 að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands. Nam fækkunin 3,5%, úr 2.672 skráðum hlutafélögum árið 2016 í 2.578 skráð félög árið 2017.

Hlutafélögum fækkaði mikið eftir hrun, þó ekki fyrr en árið 2010, en enn var aukning á milli áranna 2008 og 2009, eða úr 2.571 í 2.642 félög. Fækkunin til ársins 2010 var hins vegar umtalverð, eða 38,3%, niður í 1.630 félög.

Síðan þá hefur verið nokkuð jafn stígandi í fjölgun félaga á milli ára, eða 4,6% til ársins 2011 þegar féögin voru 1.706, 3,5% til ársins 2012, þegar þau voru 1.765, síðan kom 10,6% stökk árið 2013, upp í 1.952 félög, 5,5% árið 2014 upp í 2.059 félög, loks enn meira stökk árið 2015 þegar fjölgunin nam 16,1%, upp í 2.391 félag og svo 11,8% fjölgun árið 2016 upp í 2.672 áður en félögunum fór svo að fækka á ný eins og áður segir.