Í nýrri samantekt Fjölmiðlanefndar, sem birt var í dag, kemur meðal annars fram að um þriðjungur auglýsingaútgjalda á Íslandi rennur til prentmiðla. Aðeins um 15% birtingafjár rennur til vefmiðla, sem er mun lægra hlutfall en í öðrum löndum. 30% birtingafjár fer til sjónvarpsmiðla og 15% til útvarpsmiðla.

Fjölmiðlanefnd tók saman upplýsingar um útgjöld til auglýsinga- og birtingamála og naut liðsinnis fimm stærstu birtingahúsa á Íslandi við samantektina. Í samantektinni kemur fram að hlutdeild vefmiðla í auglýsingatekjum hefur vaxið mikið á undanförnum árum og að þess sé vænst að á þessu ári renni helmingur allra auglýsingatekna í Bretlandi til vefmiðla. Því er jafnframt spáð að í Svíþjóð, Danmörku, Ástralíu og Noregi verði hlutdeild vefmiðla í auglýsingatekjum yfir 40%.

Þessi þróun virðist ekki hafa náð til Íslands að öllu leyti, en íslenskir vefmiðlar höfðu aðeins um 12% birtingafjár í fyrra og erlendir vefmiðlar fengu aðeins um 3% af útgjöldum til auglýsinga hér á landi. Aðeins um 18% allra þeirra vefauglýsinga sem keypt eru í gegnum íslensku birtingahúsin eru á erlendum miðlum á borð við Google og Youtube. Þetta er mun lægra hlutfall en víða í nágrannalöndum okkar. Fjölmiðlanefnd nefnir sem dæmi að í Danmörku renni yfir helmingur þess fjármagns sem varið er í netauglýsingar til erlendra miðla.

Heildarupphæðin sem birtingahúsin fimm ráðstöfuðu í auglýsingar á síðasta ári var um 4,3 milljarðar króna.