Alveg frá árinu 2014 hafa félög í leigustarfsemi greitt hærra verð fyrir íbúðir á höfuðborgarsvæðinu heldur en einstaklingar. Þegar skoðaðir eru þinglýstir kaupsamningar sést að munurinn er að jafnaði um 25 þúsund krónur á fermetra miðað við núverandi verðlag eftir því sem Morgunblaðið hefur upp úr fjármálastöðugleikariti Seðlabankans.

Þetta á fyrst og fremst við miðsvæðis, það er í póstnúmerum 101, 105 og 107, en munurinn gæti í raun verið meiri því margir einstaklingar stunda leigustarfsemi fyrir eigin reikning. Þar kemur jafnframt fram að hlutdeild fyrirtækja í kaupsamningum hefur tvöfaldast frá árinu 2011 þó hún sé í dag einungis um 8% þó líklega sé þar um vanmat að ræða.

„Miðsvæðis er hlutdeildin stærri og hefur tekið meiri breytingum frá 2011,“ segir í riti bankans. „Þetta styður við þann grun að aukin hlutdeild leigusala á íbúðamarkaði hafi átt þátt í að ýta upp fasteignaverði á umliðnum árum.“