Hlutdeild lífeyrissjóða á markaðnum með ný íbúðalán hefur vaxið mjög ört á síðustu misserum, eða eftir að stærstu lífeyrissjóðir landsins lækkuðu vexti á íbúðalánum sínum og hækkuðu hámark lána. Á fyrri helmingi síðasta árs voru lífeyrissjóðir með um 7% hlutdeild á þessum markaði, en á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs var hlutdeild þeirra um 26 prósent.

Á síðasta ári lækkaði stærsti lífeyrissjóður landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, vexti á verðtryggðum íbúðalánum um 0,3 prósentustig eða úr 3,9% í 3,6%. Jafnframt var veðhlutfall hækkað úr 65% í 75% af verði íbúðar. Aðrir stórir lífeyrissjóðir fylgdu í kjölfarið síðasta haust og bættu lánskjör sín. LSR lækkaði vexti í 3,6% og hækkaði lánshlutfall í 75%. Gildi hafði áður hækkað lánshlutfall í 75%, en lækkaði fasta verðtryggða vexti sína í 3,55%.

Vextir verðtryggðra íbúðalána hjá lífeyrissjóðnum eru nú allt að 0,85 prósentum lægri en vextir sambærilegra lána hjá viðskiptabönkunum, þó að hámarksveðhlutfall sé að jafnaði lægra hjá lífeyrissjóðunum. Vextir óverðtryggðra lána eru einnig lægri hjá þeim lífeyrissjóðum sem bjóða upp á slík lán.

Algjör sprengja

Af fimm stærstu lífeyrissjóðum landsins býður Gildi nú lægstu verðtryggðu vextina. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, segir að eftir hrun hafi lánveitingar nánast alveg lagst af í tvö til þrjú ár. „Þetta hefur verið að aukast jafnt og þétt og kannski sérstaklega þegar við breyttum reglunum okkar í árslok 2013. Við hækkuðum veðhlutfall og lækkuðum vexti og lántökugjöld.

Síðan var algjör sprengja á síðasta ári. Við lánuðum 2,2 milljarða á síðasta ári sem er það mesta sem við höfum gert á einu ári. Síðustu þrjá mánuði á þessu ári erum við búnir að lána 1.600 milljónir þannig að það er orðin gríðarleg eftirspurn og mikil aukning í sjóðsfélagalánum,“ segir Árni. Spurður um þróunina næstu misserin segist hann ekki sjá annað en að aukningin í lánveitingum sé komin til að vera.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Athugasemd: Í prentútgáfu greinarinnar og fyrri netútgáfu hennar var ekki skýrt hvernig LSR og Gildi breyttu lánskjörum sínum síðasta haust. Þetta hefur nú verið skýrt frekar í kjölfar athugasemdar frá Gildi.