Árið 2012 var hlutfall launa af launakostnaði 79,8% sem skiptist í 0,4% vegna hlunninda, 2,4% vegna eingreiðslna, 9,8% vegna orlofs og sérstakra frídaga og 67,2% vegna launa. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands .

Launagreiðendur bera annan launakostnað en beinar launagreiðslur til starfsmanna og voru þær greiðslur 20,2% af launakostnaði. Þær skiptast í 9,6% vegna mótframlags í lífeyris- og séreignasjóði, 7,0% vegna tryggingagjalds, 2,7% vegna kostnaðar við veikinda- og eftirlauna og 0,9% vegna kjarasamningsbundinna greiðslna.

Hlutfall annars launakostnaðar en launa var hæst í heilbrigðis- og félagsþjónustu eða 22,3% árið 2012 en lægst í byggingarstarfsemi eða 17,5%. Hátt hlutfall annars launakostnaðar í heilbrigðisþjónustu skýrist meðal annars af háu mótframlagi launagreiðenda í lífeyrissjóð og háu hlutfalli veikindafjarvista en veikindafjarvistir, sem hlutfall af launakostnaði, voru mestar í þeirri atvinnugrein. Í byggingarstarfsemi var minna um veikindi en í flestum öðrum atvinnugreinum.

Launakostnaður á greidda stund var að meðaltali um 3.020 krónur árið 2012 sem er hækkun um 17,5% frá árinu 2008. Kostnaðurinn var lægstur í menningar-, íþrótta- og tómstundastarfsemi, eða um 2.320 krónur, en hæstur í fjármálastarfsemi, um 4.670 krónur á greidda stund.