Í nýsamþykktum lögum frá Alþingi um fasteignalán er ígildi banns við því að lögð séu á lántökugjöld sem séu hlutfall af lánsfjárhæð, að því er segir í frétt frá Samkeppniseftirlitinu.

Verður að vera byggt á kostnaði

Kveðið er á um að lánveitanda sé aðeins heimilt að krefja neytanda um gjöld í samningi um fasteignalán sem byggjast á hlutlægum grunni vegna kostnaðar sem lánveitandi hefur orðið fyrir og tengjast fasteignaláninu beint, auk vaxta.

Fagnar Samkeppniseftirlitið þessu enda er ákvæðið í samræmi við umsögn frá stofnuninni. Segir í fréttatilkynningu frá stofnuninni að um sé að ræða mikilvægt skref í átt að vinna gegn óþörfum skiptikostnaði við lántöku.

Í raun um forvexti að ræða

Í umsögninni segir stofnunin að slíkt hlutfallslegt lántökugjald sé í raun forvextir sem hafi hliðstæðan skiptikostnað í för með sér fyrir lántakendur og stimpilgjaldið sem hafi þegar verið aflagt.

Segja þeir engin rök fyrir gjaldinu en það dragi úr virkni lánveitenda til að leita bestu kjara. Jafnframt segja þeir það ekki hagkvæma leið til þess að verðleggja áhættu lánveitenda.