*

þriðjudagur, 17. júlí 2018
Innlent 25. apríl 2017 12:21

Hlutfallsleg skattahækkun nemur 118%

Viðskiptaráð segir betra að ná markmiðum um lækkun efra þreps virðisaukaskattsins með sameiningu þrepana í einu skrefi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Viðskiptaráð hvetur til þess að markmiðum lækkun á almennu þrepi virðisaukaskattsins verði náð með sameiningu skattþrepanna í einni aðgerð í stað núverandi áætlana um færslu ferðaþjónustu í almenna, efra þrepið og lækkun þrepsins hálfu ári síðar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Viðskiptaráðs um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022, en þeir benda á að skattahækkunin á ferðaþjónustuna með færslunni sé 118% hlutfallslega. Með sameiningu gæti skatturinn numið 18,5% án þess að hafa áhrif á tekjur ríkisins eða teljandi áhrif á tekjur einstaklinga, sama í hvaða tekjufjórðungi þeir teljist.

Hlynnt fjármálaáætlun því auki aga

Ráðið er hlynnt því að farið sé út í slíka áætlun, sem það segir auki aga og yfirsýn í opinberum fjármálum og styrki langtímahugsun í opinberum rekstri.

Segir ráðið skref fyrri ríkisstjórnar til að afnema tolla og almenn vörugjöld auk minnkunar bilsins á milli ólíkra þrepa virðisaukaskattsins hafa skilað innlendum aðilum verulegum kjarabótum í formi lægra verðs og aukinna viðskipta.

Segir ráðið rökin fyrir slíku jafnframt vera aukin alþjóðaviðskipti, bætta samkeppnisstöðu fyrirtækja og vænkuð kjör neytenda án skerðingar á skatttekjum hins opinbera.

Jafngildi 118% hlutfallslegri hækkun

Þannig hafi bilið milli ólíkra þrepa virðisaukaskattsins minnkað úr 18,5 prósentustigum þegar þau stóðu í 7% og 25,5% niður í 13 prósentustiga mun nú þegar þrepin eru 11% og 24%.

Hins vegar nemi hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu upp í efra þrepið jafngilda 118% hlutfallslegri hækkun, en svo skörp hækkun ógni rekstrargrundvelli margra fyrirtækja í greininni ásamt því að grafa undan þeim árangri sem náðst hafi við að skapa Íslandi jákvætt orðspor meðal ferðamanna.

Betra að sameina í einu skrefi

Ráðið fagnar því þó að lækka eigi almenna þrepið enn frekar eða niður í 22-22,5%, þó það verði ekki fyrr en hálfu ári seinna, en hins vegar telur ráðið betri kost að sameina þrepin í einu skrefi.

Vísar ráðið þar í tillögu verkefnisstjórnar um breytingar og umbætur á skattkerfinu en hún mat svo að almenna þrepið gæti lækkað niður í 18,6% við sameiningu þrepanna.

Lítil áhrif á útgjöld einstaklinga

Segir ráðið að ef þeir umsvifamiklu vöru- og þjónustuflokkar sem séu í dag í lægra þrepi virðisaukaskattsins muni allar atvinnugreinar geta ráðið við skattbyrðina í kjölfarið.

Jafnframt segja þeir slíka sameiningu hvorki vera þensluhvetjandi né mismunandi eftir efnahag einstaklinga. Niðurstaða verkefnastjórnar var að við þessa breytingu myndu útgjöld allra tekjufjórðunga íbúa landsins breytast um 0,1% eða minna.