Hluthafar Kviku Banka samþykktu á hluthafafundi í dag að hækka heimild stjórnar til hlutafjárhækkunar úr 200 milljónum króna í 400 milljónir króna að nafnvirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kviku.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hafði stjórn Kviku lagt fram ýmsar breytingar á samþykktum félagsins vegna kaupa bankans á Virðingu, en hluthafar verðbréfafyrirtækisins samþykktu kauptilboð bankans í lok síðasta mánaðar. Var tillagan um heimild til að hækka hlutafé ein af þeim sem lögð var fram.

Í tilkynningunni segir að verði önnur skilyrði samþykkts kauptilboðs Kviku banka hf. í allt hlutafé Virðingar hf. uppfyllt er gert ráð fyrir að andvirði hlutafjárhækkunar samkvæmt heimildinni verði nýtt til greiðslu kaupverðs alls hlutafjár Virðingar hf.

Hluthafar Kviku banka munu hafa forgangsrétt til áskriftar að nýjum hlutum. Ráðgert er að forgangsútboð vegna nýrra hluta verði haldið á næstu vikum.