Beint hlutfall ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu (VLF) hefur aukist úr 3,6% árið 2009 í 4,6% árið 2013. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofu Íslands .

Hlutur ferðaþjónustu í VLF fór úr 56,3 milljörðum króna árið 2009 í 87,3 milljarða króna árið 2013, eða sem nemur 55% aukningu á nafnvirði. Milli áranna 2009 og 2013 hefur hlutur ferðaþjónustu af VLF vaxið nærfellt þrisvar sinnum hraðar en VLF (sem óx um 18,6%) yfir sama tímabil.

Vinnsluvirði í ferðaþjónustu hefur einnig aukist, úr 49,7 milljörðum króna árið 2009 í 76,4 milljarða króna árið 2013, sem er vöxtur upp á 54% á nafnvirði yfir sama tímabil. Vinnsluvirði í ferðaþjónustu er með sköttum að frádregnum styrkjum tekið saman sem hlutur ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu.

Ein af lykilbreytum í útreikningum á hlut ferðaþjónustunnar í þjóðhagsstærðum er hlutfall neyslu ferðamanna af framleiðsluvirði. Sex prósent framleiðsluvirðis komu til vegna ferðaþjónustu árið 2013, borið saman við 4,6% árið 2009. Þetta er yfir 3,9% meðaltali Evrópusambandsins, samkvæmt nýjustu niðurstöðum ferðaþjónustureikninga Evrópsku hagstofunnar (Eurostat) sem birtar voru 2013.