SPSV
SPSV
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Bankasýsla ríkisins hefur ákveðið að setja 90% hlut ríkisins í Sparisjóði Svarfdæla í opið söluferli. Ákvörðunin er tekin í samræmi við tillögu stjórnar sparisjóðsins og að fenginni heimild frá fjármálaráðuneyti. Salan er háð samþykki fjármálaráðherra og Fjármálaeftirlitsins. Fyrirkomulag sölu verður kynnt nánar innan skamms af því er fram kemur í fréttatilkynningu Bankasýslunnar.

Í desember 2010 lauk fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Svarfdæla. Samtals nam eftirgjöf skulda hjá Seðlabanka Íslands 343 milljónum króna og jafnframt var kröfu að fjárhæð 382 milljónum króna breytt í stofnfé. Í framhaldi af endurskipulagningunni framseldi Seðlabankinn stofnféð til fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og fer Bankasýsla ríkisins með eignarhaldið.

Sparisjóðurinn er nú rekinn með heimild til undanþágu frá kröfu Fjármálaeftirlitsins um 16% eiginfjárhlutfall en hlutfall sjóðsins samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2010 er 10,5%. Það hefur verið helsta verkefni stjórnar sem kjörin var á aðalfundi sjóðsins hinn 17. maí 2011 að leita leiða til að tryggja rekstrargrundvöll sjóðsins til framtíðar.

„Sparisjóður Svarfdæla er fyrsta eign ríkisins í fjármálafyrirtæki sem Bankasýslan setur í opið söluferli. Við væntum þess að vel takist til í þessu söluferli sem framundan er og að sparisjóðurinn standi styrkari fótum að því loknu,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, formaður stjórnar Bankasýslu ríksins.

Sparisjóður Svarfdæla á Dalvík hefur verið starfræktur í yfir 120 ár. Sparisjóðurinn varð til í núverandi mynd við sameiningu þriggja sparisjóða árið 1993. Um var að ræða Sparisjóð Svarfdæla, Sparisjóð Hríseyjar og Sparisjóð Árskógsstrandar.