Evrópusambandið hefur ekki hlýtt úrskurði alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, um að draga úr niðurgreiðslum til flugvélaframleiðandans Airbus. Keppinautur Airbus, Boeing, segir úrskurðinn opna fyrir að Bandaríkin geti fengið refsitolla sem væru að andvirði allt að 10 milljarða dala.

Kemur úrskurðurinn í kjölfar áralangra ásakana á báða bóga frá flugvélaframleiðendunum um að þeir njóti ríkisstuðnings. Stofnunin á eftir að úrskurða um svipaða kvörtun ESB um að Boeing hagnist um milljarða dali í skattaundanþágur.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa brugðist við með því að kalla eftir því að ESB hætti þegar niðurgreiðslunum til að vernda störf í Bandaríkjunum. Evrópusambandið segist líklegt til að áfrýja dómnum sem þeir hafa kallað ófullnægjandi.