Stefan Persson, ríkasti íbúi Norðurlandanna, fæddist árið 1947, sama ár og Erling Persson, faðir hans, opnaði kvenfataverslunina Hennes í Västerås í Svíþjóð. Hugmyndin að versluninni varð til á ferðalagi Erlings í New York þar sem hann heillaðist af bandarískum tískufataverslunum. Versluninni gekk vel og smátt og smátt var verslununum fjölgað.

Árið 1968 keypti Erling svo veiðifataverslunina Mauritz Widforss.Í kjölfarið hóf fyrirtækið að selja föt fyrir bæði kynin og nafni verslunarinnar var breytt í Hennes & Mauritz eða H&M. Undir lok sjöunda áratugarins rak H&M 42 verslanir. Erling er sagður hafa haft fremur lítinn áhuga á tísku en skilið rekstur smásöluverslana betur en flestir. Fyrirtækið hefur verið byggt upp á því að láta utanaðkomandi framleiðendur, yfirleitt í fjarlægum löndum, búa til föt H&M í stað þess að gera það sjálft. Þá hefur fyrirtækið einnig lagt mikið upp úr því alla tíð að skipta hratt út vörulínum eftir árstíðum. Fyrirtækið hefur því, líkt og margir aðrir fatarisar verið gagnrýnt fyrir bág kjör verkafólks og að börn komi að fataframleiðslunni. Fyrirtækið hefur einnig verið gagnrýnt fyrir að farga fatnaði í stórum stíl eftir að flíkurnar eru teknar úr hillum verslana.

Unnnið með stjörnunum

Stefan hóf sjálfur að vinna í H&M árið 1972, þá á 25. aldursári. Hann tók við sem forstjóri af föður sínum árið 1982, 35 ára gamall, en Erling varð þá stjórnarformaður H&M. Undir stjórn Stefans óx velta H&M um allt að 30% á ári. Félagið var skráð á markað árið 1974 og fyrsta verslunin utan Norðurlandanna var opnuð í London árið 1976. Árið 1973 hóf H&M að selja nærföt og fékk ABBA söngkonuna Anni-Frid Lyngstad til að sitja fyrir í auglýsingum fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur síðan þá fengið fjölmargar þekktar stjörnur til að sitja fyrir í auglýsingum eða starfað með þeim að hönnun vörulína, þar á meðal Karl Lagerfeld, Stellu McCartney og Madonnu.

Lét hjólabrettakappa eftir stjórnina

Stefan kom tískuheiminum í opna skjöldu þegar hann ákvað að hætta sem forstjóri H&M árið 1998 og verða stjórnarformaður H&M, þá 51 árs að aldri. Við forstjórastólnum tók 34 ára gamall fyrrverandi hjólabrettakappi, Fabian Månsson. Hann entist einungis í tvö ár í forstjórastólnum. Sonur Stefans, Karl- Johan Persson tók við stjórn H&M árið 2009 og hefur leitt fyrirtækið síðan. Í dag rekur H&M um 4.000 verslanir og stefnir á að bæta við öðru eins á næstu árum. Auður Stefans er metinn á um tvö þúsund milljarða króna sem gerir hann að einum af hundrað ríkustu mönnum heims.

Stefan Persson

  • Aldur: 71 árs
  • Auðævi: 2.000 milljarðar króna
  • Uppruni auðsins: Tískufatakeðjan H&M
  • 73. ríkasti maður heims

Nánar er fjallað um ríkustu menn Norðurlandanna í Áramótum , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .